top of page
Bolungavik_Lundahverfi_b-1-687x420.jpg

Um Lundahverfi

Núna er útboði fyrir Lundahverfi lokið og vonandi förum við að sjá samninga í höfn svo gröfur, vörubílar og ýmiskonar tæki geti farið að sjást við vinnu við hverfið fljótlega. Nýjar lóðir í Lundahverfi verða 22 en gert er ráð fyrir lóðum undir einbýlishús, par- eða raðhús og fjölbýlishús við göturnar Víðilund, Grenilund, Furulund, Birkilund, Brekkulund, Völusteinsstræti og Höfðastíg. Lundahverfið var eitt helsta stefnumál beggja flokka við síðustu sveitarstjórnarkosningar og ríkir algjör einhugur um mikilvægi þess innan bæjarstjórnar Bolungarvíkur. Fiskeldissjóður hefur einnig veitt vilyrði fyrir um 40 milljóna króna styrk til þess að hefja verkefnið.  Útboðið sem nú fór fram fól í sér útgröft, fyllingu og burðarlög vegna veglagningar, fráveitu-, vatnsveitu- og raflagnir, ídráttarör og strengjalagnir í samstarfi við Mílu, Orkubú Vestfjarða og Snerpu ehf og  hellulögn vegna gangstétta. Ekki er þó gert ráð fyrir því að malbika hverfið í þessum hluta verkefnisins heldur mun það verða sér framkvæmd og vitanlega útboðsskyld framkvæmd sem mun fara fram í kjölfarið. Tekið skal einnig fram að sveitarfélagið sem slíkt hyggst ekki byggja húsnæðið í hverfinu en allir sem vilja byggja geta sótt um lausar lóðir til húsbygginga.

Þrír aðilar buðu í verkið skv. fundargerð bæjarráðs þann 23. júlí sl. Búastoð ehf. / Keyrt og mokað ehf. buðu 275.913.929 kr. sem hljóðar upp á 88 % kostnaðaráætlunar. Þotan ehf. bauð 289.488.100 kr. sem nemur 92 % kostnaðaráætlunar og síðast en ekki síst Fagurverk ehf. sem bauð 388.733.000 kr. eða 123 % kostnaðaráætlunar. Kostnaðaráætlun fyrir verkið hljóðar upp á 314.551.607 kr. Bæjarráð fól bæjarlögmanni og Eflu verkfræðistofu að fara yfir tilboðin og einstaka verkþætti ásamt hæfnikörfum bjóðenda í samræmi við útboðsskilmála. Bæjarráð samþykkti síðan í gær, þriðjudaginn 19. ágúst að hafna tilboði lægstbjóðanda og hefja viðræður við næst lægstbjóðanda á þeirri forsendu að bæjarlögmaður hafi metið það svo að lægstbjóðandi teljist ekki uppfylla kröfur útboðsins.

Margir hafa velt því fyrir sér afhverju verkefnið hafi tafist svona lengi og skil ég það vel og ætla að reyna að leggja mig fram við að svara þeirri spurningu hér að neðan. Þegar verkið var boðið út í apríl 2023 bárust tvö tilboð í verkið. Annarsvegar frá Búaðstoð ehf. og hinsvegar frá Þotunni ehf. Tilboð Búaðstoðar hljóðaði upp á 89% af kostnaðaráætlun en tilboð Þotunnar upp á 101% af kostnaðaráætun. Í maí 2023 hafnaði bæjarráð báðum tilboðum og fól bæjarstjóra að endurmeta útfærslu verksins með nýrri kostnaðaráætlun. Búaðstoð ehf. kærði málsmeðferðina til kærunefndar útboðsmála og krafðist þess að verkið yrði boðið út að nýju í stað þess að ganga til samninga án útboðs. Bolungavíkurkaupstaður hélt því fram að samningaferlið hefði aldrei hafist og að innkaupaferlinu hefði lokið með höfnun beggja tilboða. Bolungavíkurkaupstaður byggði vörn sína á því að bókun bæjarráðs lúti að því að fram skuli fara nýtt útboð með þeirri breytingu að verkið verið áfangaskipt og að samið verði svo við tilboðsgjafa í útboði um verkið í samræmi við útboðsskilmála þess. Það væri því alveg ljóst að innkaupaferlinu hafi lokið með því að báðum tilboðum hafi verið hafnað. Bolungarvíkurkaupstaður hafi þannig sjálfkrafa orðið við aðalkröfu kæranda í málinu um að bjóða verkið út að nýju. Niðurstaða kærunefndarinnar var því að vísa frá kröfu kæranda þar sem fyrir lá að útboð færi fram að nýju.

Verkið var síðan boðið út að nýju um mánaðarmótin maí/júní árið 2025 en það uppgötvaðist þegar líða tók að opnun útboða að gleymst hafði að auglýsa verkið í stjórnartíðindum og því hafi þurft að bjóða verkið út að nýju, því rétt skal vera rétt, og var það gert í júní með auglýsingu um opnun tilboða þann 17. júlí sl.

 

Magnús Ingi Jónsson

Forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkurkaupstaðar

Bolungavik_Lundahverfi-1-696x588.jpg

©2018 by Máttur meyja og manna. Proudly created with Wix.com

bottom of page